Bjarni Ármannsson stjórnarformaður Reykjavik Energy Invest

Bjarni Ármannsson.
Bjarni Ármannsson. mbl.is/Jim Smart

Tilkynnt var formlega á blaðamannafundi í dag, að Bjarni Ármannsson, fyrrverandi forstjóri Glitnis, verði stjórnarformaður Reykjavík Energy Invest, útrásararms Orkuveitu Reykjavíkur. Þá kom fram að félagið hyggst safna um 50 milljarða króna hlutafé til að hefja fjármögnun alþjóðlegra jarðhitaverkefna.

„Þetta er afskaplega spennandi fyrir mig að koma að þessu verkefni. Ég er búinn að vera starfandi í fjármálageiranum allt mitt líf [...] Þetta er svolítið önnur nálgun að koma inn í orkugeirann og nýtingu hans. En ég held að það sé nokkuð augljóst mál að í upphafi 21. aldarinnar, á tímum þverrandi kolefnisorkuframleiðslu og vaxandi mengunar af þeirra völdum, er áherslan að færast sífellt meira í það form hvernig hægt er að nýta þessa orkugjafa til vistvænni og betri heims, og þá peninga og fjármagn sem til þarf,“ sagði Bjarni.

Á blaðamannafundi, þar sem Reykjavik Energy Invest var kynnt, kom fram að fjöldi erlendra og innlendra fjárfesta hafi lýst yfir áhuga á þátttöku í fyrirtækinu. Stefnt sé að því að gefa út nýtt hlutafé í fyrirtækinu og að Orkuveita Reykjavíkur verði kjölfestufjárfestir með um 40% hlutafjár.

Reykjavik Energy Invest á hluti í útrásarfélögunum Enex, Enex-Kína, Galantaterm og Iceland American Energy. Bjarni hefur keypt hluti í félaginu fyrir hálfan milljarð króna.

Guðmundur Þóroddsson verður forstjóri félagsins næstu mánuði en hann fékk tímabundið leyfi frá störfum sem forstjóri Orkveitu Reykjavíkur. Hann sagði á fundinum í dag, að fyrirtækið hyggist jöfnum höndum afla sér rannsóknar- og nýtingarleyfa á jarðhitasvæðum og reisa virkjanir sem og að fjárfesta í þegar reistum virkjunum, þar sem bæta má reksturinn. Þá mun það ekki láta fram hjá sér fara tækifæri í nýtingu jarðhita til húshitunar.

Auk Bjarna sitja Haukur Leósson, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, og Björn Ingi Hrafnsson, varaformaður stjórnar OR, í stjórn Reykjavik Energy Invest.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert