Boranir tilkynntar allar í einu

Eftir Silju Björk Huldudóttur

silja@mbl.is

Hitaveita Suðurnesja hefur átt fund með Skipulagsstofnun þar sem kynnt voru alls sex svæði á Reykjanesskaga þar sem HS fyrirhugar borun rannsóknarholna. Svæðin eru við Trölladyngju, Köldunámur, Austurengjahver, Hveradali í Krísuvík, Sandfell og Eldvörp.

Afstaða til borunar tekin á hverju svæði fyrir sig

Að sögn Stefáns Thors, skipulagsstjóra ríkisins, varð niðurstaðan sú að stofnunin mælti með að því að rannsóknarborun á öllum framangreindum borsvæðum yrði tilkynnt í einu lagi til stofnunarinnar, sem tæki ákvörðun um matsskyldu, en síðan yrði tekin afstaða til borunar rannsóknarholu á hverju svæði fyrir sig.

Allar rannsóknarboranir eru tilkynningarskyldar til Skipulagsstofnunar, sem metur á grundvelli umsagna frá lögboðnum umsagnaraðilum hvort borun eigi að vera háð mati á umhverfisáhrifum.

Samkvæmt upplýsingum frá Skipulagsstofnun hafa verið tilkynntar rannsóknarholur á Reykjanesskaga við Trölladyngju, á Hellisheiði, á Ölkelduhálsi, við Hverahlíð og á Stóra-Skarðsmýrarfjalli, í Innstadal og Fremstadal, í Köldukvíslarbotnum og í Grændal. Auk þess hafa verið tilkynntar alls fimm holur á Þeistareykjum, þar af tvær sem boraðar hafa verið á borplani sem er fyrir en var útvíkkað.

Úrskurðir féllu um rannsóknarboranir í Grændal þar sem lagst var gegn framkvæmdinni og um jarðhitanýtingu á Reykjanesi þar sem lagst var gegn borun einnar holu af þremur.

Sjá nánar í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert