Afar fjölmennum félagsfundi Flugfreyjufélags Íslands lauk ekki fyrr en seint á tólfta tímanum í gærkvöldi. Þar var að sögn Sigrúnar Jónsdóttur, formanns félagsins, gríðarlega góð stemning og nánast áþreifanleg.
Um 160 flugfreyjur og -þjónar sóttu fundinn en í ágústmánuði voru 605 flugþjónar á launaskrá Icelandair. „Það er mikil samstaða innan hópsins," sagði Sigrún og bætti við að á fundinum hefði m.a. verið samþykkt ályktun og uppsagnirnar harmaðar. Auk þess var samþykkt að fara að fordæmi Félags íslenskra flugmanna og vinna ekki umfram vinnuskyldu.
Sigrún greindi einnig frá því að rætt hefði verið við stjórnendur Icelandair um mótvægisaðgerðir, s.s. að þeim sem ekki hefur verið sagt upp verði boðið að taka sér frí, launalaust leyfi eða minnka við sig starfshlutfall í desember til mars. Vonast er til að ástandið verði betra frá aprílmánuði.
Sjá nánar í Morgunblaðinu í dag.