Nafni Höfðahrepps hefur verið breytt í Sveitarfélagið Skagaströnd. Var þetta gert í samræmi við vilja íbúanna en mikill meirihluti þeirra kaus þessa breytingu í könnun sem lögð var fyrir við alþingiskosningar síðastliðið vor.
Tæplega 600 manns búa nú á Skagaströnd. Atvinnulífið byggist að mestu leyti á sjávarútvegi, fiskvinnslu og þjónustu við útveginn. Stærsta fyrirtækið er Fisk Seafood sem varð til árið 2005 við sameiningu Skagstrendings hf. og Fiskiðjunnar Skagfirðings hf. Fyrirtækið vinnur á Skagaströnd úr ferskum og söltuðum afurðum sem að mestu eru seldar til Evrópu. Fjöldi smábáta er gerður út frá Skagaströnd og þjónusta við þá fer vaxandi.
Samkvæmt upplýsingum frá sveitastjórninni er aldursamsetning íbúa hagstæðari en víðast hvar á landsbyggðinni. Fólk sé almennt yngra og hlutfall fólks undir 45 ára hagstæðara en landsmeðaltal segi til um. Þá sé hlutfall eldri borgara talsvert lægra en á landinu öllu.