Miðgildi heildarlaunatekna viðskipta- og hagfræðinga mældist 520 þúsund kr. Heildarlaun hafa hækkað um 13% frá 2005, eða um 6,5% á ári. Hækkun á miðgildi launa er talsvert meiri nú en fyrir tveimur árum þegar laun höfðu hækkað um tæp 6% á tveggja ára tímabili en álíka og fyrir fjórum árum þegar laun höfðu hækkað um tæplega 14%. Þetta kemur fram í launakönnun á vegum Félags viðskipta- og hagfræðinga.
Þegar niðurstöðurnar eru greindar eftir starfsaldri svarenda kemur í ljós að laun flestra hópa hækka um í kringum 20% en sá hópur sem hækkar minnst eru þeir sem eru með 3-5 ára starfsreynslu. Laun þeirra hækka einungis um 9% frá síðustu mælingu.
Laun karla og kvenna hafa hækkað álíka mikið frá síðustu mælingu. Laun kvenna hækka um 12,8% en laun karla um 13,3%. Þegar ekki er tekið tillit til annarra þátta breytist launamunur kynjanna því nánast ekkert milli mælinga.
„Þegar launamunurinn er leiðréttur með tilliti til vinnuframlags þá hefur hann lítið breyst frá síðustu mælingu, var 21,5% en er nú 21,2%. Áhyggjuefni er að þegar launamunur kynjanna er svo leiðréttur með tilliti til fleiri þátta eins og menntunar, starfs, atvinnugreinar, aldurs, vinnuframlags, mannaforráða og starfsaldurs kemur í ljós að launamunur kynjanna virðist vera heldur að aukast frekar en hitt. Nú mælist leiðréttur launamunur 8,8% en mældist 7,6% árið 2005 og 6,8% árið 2003," að því er segir í tilkynningu frá FVH.