Whole Foods auglýsir Ísland á ný

Afstaða bandarísku verslanakeðjunnar Whole Foods til markaðssetningar á íslenskum matvörum hefur breyst eftir að Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra, tilkynnti að ekki yrðu gefnir út nýir hvalveiðikvótar í bili.

Fram kemur í Bændablaðinu í dag, að ákveðið hafi verið að hefja auglýsingaherferð fyrir þessar vörur í þessari viku en henni var slegið á frest eftir að umræður um hvalveiðar Íslendinga náðu hámarki á liðnu vori.

Bændablaðið hefur eftir Baldvini Jónssyni, framkvæmdastjóra Áforms, að auglýsingaefni, sem beðið hafi í skúffum síðan í vor yrði nú sett upp í verslunum keðjunnar í New York og Boston sem er viðbót við Washingtonsvæðið.

„Stjórnendum Whole Foods líður greinilega betur með að markaðssetja Ísland eftir yfirlýsingu ráðherrans og þeir ætla að koma til landsins í hefðbundna réttarferð nú í vikunni, en óljóst var hvort af henni yrði. Svo er nýtt kjöt á leiðinni frá Hvammstanga og Selfossi svo þetta lítur allt vel út,“ segir Baldvin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert