Athugasemd heimiliskattar um Kársnesið ekki talin með

Íbúar á Kársnesi hengdu víða upp mótmælaborða vegna skipulagstillagnanna.
Íbúar á Kársnesi hengdu víða upp mótmælaborða vegna skipulagstillagnanna. mbl.is/Kristinn

Athugasemdir við hugmyndir um skipulag á hafnarsvæði á Kársnesi í Kópavogi bárust frá alls 1.674 einstaklingum á aldrinum tveggja til 90 ára, að því er fram kemur í tilkynningu frá Kópavogsbæ nú síðdegis. Frá íbúum á Kársnesinu sjálfu bárust 1.117 athugasemdir. Langflestar athugasemdirnar bárust eftir að bæjarráð ákvað að framlengja frest til athugasemda til 3. september.

„Fjórar athugasemdir bárust eftir auglýstan frest en eru teknar til greina engu að síður og sömuleiðis athugasemdir frá börnum og ungmennum undir 18 ára aldri. Í heildartölunni eru jafnframt þrjár athugasemdir sem eru nafnlausar eða með ólæsilegri undirskrift. Athugasemd frá heimilisketti er ekki meðtalin,“ segir í tilkynningunni.

„Þeir yngstu sem gerðu athugasemd við hafnarsvæðið voru 2ja ára og þeir elstu um nírætt. Fjöldi athugasemda er samhljóða, enda stöðluð form tiltæk á netinu, og í fjölda tilvika barst sama athugasemdin frá mörgum innan sömu fjölskyldu. Skipulagsstjóri Kópavogsbæjar hefur athugasemdirnar til frekari greiningar og hliðsjónar við skipulagsvinnu á Kársnesi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert