Sveitarfélög keppa um Náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs að þessu sinni. Fjögur sveitarfélög eru tilnefnd af þeim sjö sem borist hafa, þrjár tillögur eru um stofnanir sem heyra undir sveitarfélög. Þeir sem tilnefndir eru, eru frá Finnlandi, Svíþjóð, Noregi, Danmörku og Grænlandi.
Í upphafi bárust 29 tilnefningar til verðlaunanna, en dómnefnd hefur nú valið sjö til að keppa í annarri umferð. Meðal þeirra sem féllu út eftir fyrstu umferð var fríríkið Kristjanía í Kaupmannahöfn, en mjög skiptar skoðanir eru um tilvist þess fríríkis, samkvæmt upplýsingum frá Norðurlandaráði.
Umhverfisverðlaunin, sem nema andvirði 350.000 danskra króna eða um 4.2 milljónum íslenskra króna, eru nú veitt í þrettánda sinn. Þema ársins eru umhverfisvænar sjálfbærar borgir. Verðlaunin verða veitt norrænu sveitarfélagi, stofnun, einstaklingi eða fyrirtæki sem hefur verið í fararbroddi við uppbyggingu grænna svæða, samgöngukerfa, sorpvinnslu eða aukins orkuframboðs í borgarumhverfi.
Dómnefnd kemur saman í Maríuhöfn á Álandseyjum þann 10. október til að skera úr um hver hlýtur verðlaunin í ár. Niðurstaðan verður tilkynnt á fréttamannafundi sama dag. Verðlaunin verða afhent á Norðurlandaráðsþinginu sem haldið verður í Ósló um mánaðamótin október,–nóvember.
Náttúru- og umhverfisverðlaunin eru meðal fjögurra verðlauna Norðurlandaráðs. Í fyrra hlaut færeyski haffræðingurinn Bogi Hansen verðlaunin. Önnur verðlaun Norðurlandaráðs eru bókmenntaverðlaun, kvikmyndaverðlaun og tónlistarverðlaun.
Þeir sem tilnefndir eru til Náttúru- og umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs árið 2007 eru:
Sveitarfélagið Albertslund, Danmörku
Sveitarfélagið Frederikshavn, Danmörku
Sveitarfélagið Lahti, Finnlandi
Umhverfisstofnunin í Málmey, Svíþjóð
Sveitarfélagið Stavanger, Noregi
Menningar- og umhverfishúsið í sveitarfélaginu Narsaq, Grænlandi.
Ulf Ranhagen, Svíþjóð