Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að karlmaður, sem dæmdur hefur verið í héraði í 18 mánaða fangelsi fyrir ýmis auðgunarbrot og er grunaður um innbrot eftir að dómurinn féll, sæti gæsluvarðhaldi þar til dómur fellur í Hæstarétti. Gæsluvarðhaldinu er þó markaður tími til 5. október.
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi manninn þann 6. september í 18 mánaða fangelsi fyrir ýmis auðgunarbrot. Daginn eftir var hann handtekinn fyrir innbrot í arkitektastofu í Reykjavík en hann þekktist á myndum úr öryggismyndavél. Maðurinn stal þar tölvubúnaði, flatskjám, ferðatölvum, hugbúnaði, kreditkortum, tékkhefti og lyklum af bíl sem hann stal síðan og fór í nokkra hraðbanka í Hafnarfirði og tók peninga út á kortin. Þýfið var metið á rúmar 5 milljónir króna en það fannst allt eftir að maðurinn var handtekinn nema ein tölva.
Maðurinn sagðist hafa framið innbrotið undir áhrifum fíkniefnaneyslu og ætlað að selja þýfið upp í skuldir.