„Kjaftasaga að barnaverndarstarfsmenn flýi Kópavog"

Þór Jónsson, upplýsingafulltrúi Kópavogsbæjar segir það ekkert hæft í þeirri kjaftasögu, sem gangi um bæinn, að óvenjumargir starfsmenn fjölskyldudeildar Félagsþjónustunnar í Kópavogi hafi sagt upp störfum í kjölfar þess að gerður var starfslokasamningur við yfirmann deildarinnar. Áður hafði umræddur starfsmaður sagt opinberlega að of fáir starfsmenn ynnu að barnaverndarmálum í Kópavogi og að því væri ekki hægt að sinna málum sem skyldi.

Þór segir að auk þess sem umræddur yfirmaður hafi látið af störfum hafi aðeins einn starfsmaður hætt en starf hans hafi falist í fjárhagslegri ráðgjöf. Þá hafi einn starfsmaður sagt upp störfum en hann hafi síðan dregið uppsögn sína til baka. Auk yfirmannsins og fjármálaráðgjafans vanti því einungis starfskraft í 65% stöðu við deildina og að við því hafi verið brugðist með tilfærslum.

Auglýst hefur verið eftir starfsmönnum í þau störf sem laus eru við deildina og segir Þór að vinna verði hafin við að fara yfir umsóknir og boða umsækjendur í viðtöl um leið og umsóknarfrestur rennur út.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert