Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, segir, að samtals verði varið 10,5 milljörðum króna til mótvægisaðgerða á næstu tveimur fiskveiðiárum vegna niðurskurðar þorskkvóta. Ekki eru í þessari tölu framlög til vísindaverkefna.
6,5 milljarðar eru nýtt fjármagn sem ætlað er að styrkja atvinnulíf í landinu, auka menntun og bæta úrræði þeirra einstaklinga sem verða fyrir atvinnumissi, koma til móts við fyrirtæki í sjávarútvegi og styðja sveitarfélögin í landinu vegna tekjusamdráttar. Að auki verður framkvæmdum fyrir ríflega fjóra milljarða króna flýtt á árunum 2008-2010.
Árni sagði að það væri mat ríkisstjórnarinnar, eftir að hafa ráðfært sig við Byggðastofnun og atvinnuþróunarstofnanir, að sé sé líklegt að komi til fjöldaatvinnuleysis í sjávarútvegi á næstu mánuðum. Fyrirtæki muni í lengstu lög forðast uppsagnir og halda að sér höndum fram yfir áramót. Sagði Árni að fyrirtæki muni líklega halda skipum lengur í höfn að vori og taka lengri sumarstopp. Því sé áhersla lögð á sveitarfélög, þar sem yfir 10% af vinnuafli eru í sjávarútvegi og þar sem hagvaxtar hefur ekki notið.
Árni sagði, að það flækti málið, að sums staðar þar sem áhrif af aflaheimildarskerðingunni eru mikil, komi aðrir hlutir á móti.
Árni sagði, að um væri bæði beinar aðgerðir, sem koma til framkvæmda strax og aðgerðir sem koma til framkvæmda á lengri tíma. Árni nefndi m.a. að 1200 milljómn skuldum yrði létt af Byggðastofnun, vegaframkvæmdum verði flýtt sem og framkvæmdum við Akureyrarflugvöll. Þá verður raforkukerfið styrkt, veiðigjald fellt niður og framlög til vísindarannsókna aukin.
Fram kom á fundinum, að 2,5 milljörðum króna sé óráðstafað af þeim fjármunum sem lagðir verða í verkefnið. Fer það eftir þróun mála á hverjum stað hvernig þeim verður ráðstafað. Þá sagði Árni erfitt að meta hversu mörg störf og námspláss væri verið að skapa en þau væru sennilega á bilinu 5-600. Áhersla væri lögð á, þetta séu störf, sem fólk geti sinnt eftir að hafa tekið stutt námskeið.
Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra, sagði að sérstök áhersla yrði lögð á að styrkja sveitarfélögin vegna tapaðra löndunargjalda og lækkandi útsvars. Framlög til sveitarfélaga verða aukin um 500 milljónir króna árlega.
Þá verður sérstök áhersla lögð á úrræði fyrir innflytjendur og konur. Fjármagn til fjölmenningarseturs á Ísafirði verður aukið um 150% og stuðningur við konur í sjálfstæðum atvinnurekstri verður tvöfaldaður. Á næstu tveimur árum koma því 40 milljónir til að styrkja konur í atvinnuleysi. Einnig verður dögum, sem heimilt er að greiða vegna hráefnisskorts, fjölgað.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, sagði að framlög til þorskeldis og hafrannsókna á tímabilinu verði stóraukin. M.a. verða framlög til togararalls aukin um 150 milljónir. Einnig verður lögð áhersla á að styrkja háskólasetur og framhaldsskóla úti á landsbyggðinni.