Skráð atvinnuleysi í ágúst 2007 var 0,9% sem er sama hlutfall og í júlí. Skráð atvinnuleysi í ágúst 2007 var 0,9% eða að meðaltali 1.476 manns sem eru 102 færri en í júlí sl. og minnkaði um 6,5% milli mánaða. Atvinnuleysi er um 24% minna en á sama tíma fyrir ári þegar það var 1,2%. Í Vegvísi Landsbankans segir að atvinnuleysi hafi ekki verið jafnlítið síðan haustið 2000.
Í skýrslu Vinnumálastofnunar kemur fram að yfirleitt batnar atvinnuástand milli ágúst og september. Ólíklegt er þó að atvinnuleysi minnki enn frekar þegar það er orðið þetta lítið og því má búast við svipuðu atvinnuleysi í september og er nú.
Atvinnuleysi á höfuðborgarsvæðinu minnkaði um 86 eða um 10% en á landsbyggðinni minnkaði það um 16 eða 2,5% milli mánaða. Atvinnuleysi kvenna mældist 1,2% og karla 0,6%. Um 13% atvinnulausra í ágúst var ungt fólk á aldrinum 16-24 ára, en um 14% í júlí sl. Fjöldi þeirra sem hafa verið á skrá í innan við 3 mánuði minnkaði úr 823 í júlí í 709 í ágúst. Þeim sem verið hafa á skrá lengur en 6 mánuði fækkaði úr 599 í júlí í 557 í ágúst.
Gefin voru út 77 ný atvinnuleyfi í ágúst til íbúa utan hins Evrópska efnahagssvæðis. Nýskráningar ríkisborgara frá nýju ríkjum ESB voru 757, og þeir sem voru áður með leyfi voru 298 eða samtals 1.055.