Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að útgjaldaliðurinn bætur til brotaþola fór langt fram úr fjárheimildum fjárlaga ársins 2006, eða 134 milljónir króna. Athygli vekur að greiðslur úr ríkissjóði vegna bóta til brotaþola fóru 15 milljónir króna fram úr fjárheimildum árið 2005 og 16 milljónir árið 2004.
Þetta er því gríðarleg aukning milli ára og ljóst að fjármagn til þessa liðar á fjárlögum hefur verið verulega vanáætlað. Ríkissjóður greiðir brotaþolum bætur í þeim tilfellum þar sem brotamenn eru ekki borgunarmenn fyrir þeim og einnig í þeim tilfellum þar sem ekki er vitað hver brotamaðurinn er. Hins vegar er hámarksfjárhæð á bótum frá ríkissjóði og í mörgum tilfellum fá brotaþolar ekki greiddar til fulls þær bætur sem þeim eru dæmdar.
Í svari Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra við spurningum um ástæður þessarar framúrkeyrslu kemur fram að greiðsla bóta til brotaþola sé lögbundin og því hafi ráðuneytið ekkert vald yfir þeim fjárhæðum sem um ræðir.
„Ákvörðun um bótaskyldu hins dæmda manns og fjárhæð bóta er tekin af dómara og ákvörðun um greiðsluskyldu ríkisins er síðar tekin af sjálfstæðri bótanefnd. Ráðuneytin standa því í hvert sinn frammi fyrir ákvörðunum sem aðrir taka og eiga ekki annars úrkosti en að greiða samkvæmt því sem þar er ákveðið," segir Björn.
Hvað varðar skýringar á þessum mikla vexti í ákvörðuðum bótum er ein þeirra sú að umsýsla bótanefndar var færð til embættis sýslumannsins á Siglufirði. Hafi þær breytingar skilað góðum árangri og leitt til þess að fleiri kröfur koma til greiðslu að sögn dómsmálaráðherra.
Nánar í Blaðinu