Fær að halda ofgreiddum launum

Hæstiréttur hefur sýknað karlmann af kröfu Landsbankans um að maðurinn endurgreiði bankanum ofgreidd laun, sem bankinn lagði fyrir mistök inn á reikning mannsins. Þetta gerðist árið 2002 og vísar Hæstiréttur m.a. til þess að bankinn hafi ekki gert tilraun til að endurkrefja manninn um fjárhæðina fyrr en þremur árum síðar.

Héraðsdómur Reykjavíkur hafði áður dæmt, að maðurinn skyldi endurgreiða bankanum upphæðina.

Vinnuveitandi mannsins óskaði í apríl 2002 eftir því að Landsbankinn legði rúmlega 27 þúsund króna upphæð inn á launareikning mannsins en fyrir mistök lagði bankinn einnig inn á reikninginn 94 þúsund krónur, sem annar maður átti að fá.

Vinnuveitandinn óskaði eftir því að bankinn endurgreiddi upphæðina haustið 2004 og um mitt ár 2005 krafði bankinn manninn bréflega um fjárhæðina ásamt dráttarvöxtum og innheimtukostnaði.

Hæstiréttur segir, að það sé meginregla, að þeir sem fyrir mistök fá greidda peninga sem þeir eiga ekki rétt á skuli endurgreiða þá. Á þeirri reglu verði þó að gera undantekningar eftir atvikum. Í þessu tilviki væri um að ræða launagreiðslu til mannsins og móttakendur launa hefðu ríka hagsmuni af því að launauppgjör væru endanleg. Þá hlyti vinnuveitandi mannsins að hafa haft undir höndum upplýsingar um að mistök hefðu átt sér stað, en hann gerði ekki athugasemdir við starfsmanninn.

Þá taldi Hæstiréttur, að ekki hafi verið sýnt fram á að manninum hefði mátt vera ljóst að ofgreitt hefði verið inn á reikning hans og vísar einnig til þess, að bankinn gerði ekki reka að því að endurkrefja manninn um fjárhæðina fyrr en að þremur árum liðnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert