Forvarnarmál í öndvegi

Frá fundinum í morgun
Frá fundinum í morgun

Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, sagði á fundi um aukið heilbrigði - ábyrgð atvinnulífsins í morgun að á vegum heilbrigðisráðuneytisins sé hafin vinna að víðtækri stefnu í forvarnarmálum sem tekur á öllum helstu þáttum sem kljást þarf við í bráð.

Þung áhersla sé lögð á að efla grasrótarstarf og verður áhersla lögð á að hinir ýmsu aðilar sem tengjast forvörnum svo sem íþróttahreyfingin, frjáls félagasamtök, atvinnulíf og verslun gegni þar lykilhlutverki.

86% dauðsfalla og 77% sjúkdómsbyrðarinnar í Evrópu árið 2002 mátti rekja til sjúkdóma sem má draga úr með aukinni hollustu og breyttum lífsháttum. Ávinningurinn er því ótvíræður ekki síst fyrir einstaklinginn sjálfan, að því er segir í fréttatilkynningu frá Samtökum verslunar og þjónustu sem stóðu fyrir fundinum.

Á eftir ráðherra fjallaði Sigurður Jónsson, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, um betri lífshætti og hver ábyrgð verslunarinnar væri í þeim efnum. Því næst fjallaði Jónína Þ. Stefánsdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun um hollustumerkingar á matvörum. Fram kom í erindi hennar hvar nágrannalönd okkar væru stödd í slíkum merkingum og að neytendur hér á landi væru hlynntir því að slíkar merkingar yrðu teknar upp hér.

Næst kom Magnúr Scheving, forstjóri Latabæjar og ræddi um með hvaða hætti atvinnulífið gæti stuðlað að hollari lífsáttum í þjóðfélaginu. Hann talaði um að þörf væri á heildarlausnum sem kæmu inn á bæði hreyfingu og mataræði sem og aðra þætti daglegs lífs, að því er segir í tilkynningu.

Í lok fundar undirrituðu forsvarsmenn matvöruverslunarinnar yfirlýsingu þar sem verslunarmenn munu gera það sem í þeirra valdi stendur til að hvetja til aukinnar neyslu hollra vara sem og aukinnar hreyfingar bæði meðal starfsmanna og viðskiptavina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert