Gera þarf samkeppni á íslenskum raforkumarkaði virkari

mbl.is/Einar Falur

Samkeppniseftirlitið telur, að huga þurfi að aðgerðum sem miða að því að gera samkeppni á íslenskum raforkumarkaði virkari. Segir stofnunin m.a. að huga þurfi að því að auka nákvæmni orkumælinga, m.a. með orkumælum sem senda frá sér upplýsingar um orkunotkun reglulega. Slíkar orkumælingar ættu að leiða til meiri fjölbreytni í verði á raforku og auka verðvitund neytenda og samkeppni smásala, ásamt því að bæta nýtingu raforku.

Birt var í dag ný skýrsla norrænu samkeppniseftirlitanna um raforkumarkaðinn þar sem m.a. er fjallað um hugsanlegar samkeppnishindranir og úrræði til að draga úr þeim. Samhliða kynnti Samkeppniseftirlitið áherslur sínar í tilefni af skýrslunni.

Samkeppniseftirlitið segir, að taka þurfi til umfjöllunar á vettvangi orkufyrirtækja og stjórnvalda, að skilja með skýrari hætti milli einkaleyfis- og samkeppnisþátta raforkumarkaðarins, þ.e. flutnings og dreifingar annars vegar og framleiðslu og sölu hins vegar. Að mati Samkeppniseftirlitsins væri í bestu samræmi við markmið samkeppnislaga að skilja að eignarhald samkeppnis- og einkaleyfisþátta, en að lágmarki að skilja þessa starfsemi að í sjálfstæðum félögum.

Samkeppniseftirlitið segir, að hinn íslenski raforkumarkaður sé að ýmsu leyti frábrugðinn öðrum norrænum raforkumörkuðum. Mun meira hafi verið fjárfest í orkuverum á Íslandi á umliðnum árum en á öðrum Norðurlöndum. Helgist það meðal annars af því að á Íslandi sé mögulegt að virkja töluvert vatnsafl og jarðvarma með tiltölulega lágum tilkostnaði. Þá séu umtalsvert færri raforkusmásalar á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum auk þess sem hlutdeild stærsta framleiðandans í framleiðslu á rafmagni sé mjög há. Talsverð samþjöppun á norrænum raforkumarkaði
Á Norðurlöndunum er talsverð samþjöppun á ýmsum sviðum raforkumarkaðarins. Fjöldi smásala er misjafn en að meginstefnu til er orkuframleiðsla í höndum fárra stórra fyrirtækja. Í norrænu skýrslunni segir, að samþjöppun hafi þó ekki aukist verulega á undanförnum árum. Alla jafna sé töluvert um sameiginlegt eignarhald og krosseignarhald í raforkugeiranum á Norðurlöndum en því geti fylgt ýmis samkeppnisleg vandamál.

Framleiðsla hefur ekki aukist í takt við eftirspurn á öðrum Norðurlöndum en Íslandi. Þá hefur orkuverð verið mjög breytilegt á Norðurlöndum af ýmsum ástæðum og fjárfestingar í flutningskerfum hafa víða verið ófullnægjandi. Telja Norrænu samkeppniseftirlitin að nauðsynlegt sé að regluverkið styðji við hæfilegt magn fjárfestingar þar sem gott flutningskerfi er ein af forsendum samkeppni á raforkumarkaði. Jafnframt þurfi að felast hvatar í regluverki flutningskerfisins til þess að halda niðri kostnaði.

Mesta vandamál smásölu á raforkumarkaði er verðvitund neytenda. Fáir hafa skipt um raforkusmásala á sumum Norðurlandanna, sér í lagi á Íslandi. Til þess að auka verðvitund neytanda myndu raforkumælar sem senda reglulega frá sér upplýsingar um notkun vera æskilegir að því gefnu hægt sé að koma þeim upp án óhóflegs kostnaðar. Neytendur gætu þá lagað sig betur að raforkuverðum sem myndi stuðla að hagstæðari kjörum þeirra og betri nýtingu raforku.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert