„Mikið högg" segir farþegi í rútunni

Mikill jarðvegur var á veginum í Kollafirði í morgun.
Mikill jarðvegur var á veginum í Kollafirði í morgun. mbl.is/Júlíus

„Þetta var mikið högg," sagði Sigurbjörg Ragnarsdóttir. Hún var ásamt um 60 öðrum farþegum í rútu, sem lenti á skriðu á þjóðveginum skammt frá Mógilsá í Kollafirði í nótt. Hópurinn var á leið frá Akranesi til Keflavíkurflugvallar í flug.

Sigurbjörg sagði, hópurinn hefði lagt af stað frá Akranesi um kortéri fyrir fjögur í nótt og bíllinn lenti á skriðunni um 15-20 mínútum síðar. Hún sagði að henni hefði að vonum brugðið ónotalega enda ekki von á neinum tálma á veginum á þessum slóðum. „Það varð okkur þó til happs, að bílstjórinn hafði hægt ferðina vegna þess að bíll, sem var á undan okkur, var að snúa við á veginum," sagði hún.

Tveir farþegar í rútunni meiddust lítillega, þar af þurfti að sauma skurð á öðrum. Sigurbjörg ætlaði ásamt hinum farþegunum að halda áfram ferð sinni til Keflavíkurflugvallar en önnur rúta var komin Reykjavíkurmegin að skriðunni til að sækja konurnar. „Ég vona að við náum fluginu," sagði Sigurbjörg.

Skriðan var um þrjátíu metra breið og rúmlega metri að …
Skriðan var um þrjátíu metra breið og rúmlega metri að hæð. mbl.is/Júlíus
Farþegarnir á leið upp í aðra rútu sem flytur þá …
Farþegarnir á leið upp í aðra rútu sem flytur þá til Keflavíkurflugvallar. mbl.is/Júlíus
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert