Pylsur og kók fyrir 30.554 tíkalla

Guðrún Kristmundsdóttir, eigandi Bæjarins beztu afhendir Kristínu Helgu Guðmundsdóttur, verkefnisstjóra …
Guðrún Kristmundsdóttir, eigandi Bæjarins beztu afhendir Kristínu Helgu Guðmundsdóttur, verkefnisstjóra í Konukoti afrakstur helgarinnar

Í tilefni af 70 ára afmæli Bæjarins beztu var um síðustu helgi var viðskiptavinum boðið að kaupa sér pylsu fyrir 10 krónur og kókglas fyrir annað eins; pylsu og kók fyrir tuttugu krónur.

Því var jafnframt heitið að allt sem „í kassann kæmi" myndi renna til góðgerðamála. Í lok helgar réðst eigandi í það verk ásamt starfsfólki sínu að telja alla tíkallana og þegar upp var staðið reyndust 30.554 tíkallar hafa safnast fyrir og reyndar 6 krónum betur, hvernig svo sem á því stendur. Lokatalan reyndist vera 305.546 krónur. Þetta þýðir að 15.277 manns hafa fengið sér pylsu og kók á Bæjarins beztu um helgina.

Í fréttatilkynningu kemur fram að Guðrún Kristmundsdóttir, eigandi Bæjarins beztu, ákvað að afrakstur helgarinnar skyldi renna til Konukots, næturathvarfs fyrir heimilislausar konur sem er samstarfsverkefni Reykjavíkurdeildar Rauða krossins og Reykjavíkurborgar. Kristín Helga Guðmundsdóttir, verkefnisstjóri í Konukoti veitti gjöfinni viðtöku í gær.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert