Allt í einu fastur í skriðu

Farþegarnir feta sig yfir skriðuna frá rútunni.
Farþegarnir feta sig yfir skriðuna frá rútunni. mbl.is/Júlíus

„Það áttaði sig enginn á þessum haug fyrr en við lentum í honum," sagði Reynir Jóhannsson, bílstjóri rútunnar sem ekið var inn í aurskriðu á Vesturlandsvegi í Kollafirði í fyrrinótt.

Reynir sagði að sem betur fer hefði hann verið búinn að draga mikið úr ferðinni vegna þess að hann sá að bíl var snúið við á veginum. Var honum síðan ekið á móti rútunni með háu ljósin á. Vissi Reynir síðan ekki fyrri til en hann var kominn inn í skriðuna.

Rúmlega 60 manns, aðallega starfsmenn Dvalarheimilisins Höfða á Akranesi, voru í rútunni og voru meiðsl á fólki minniháttar. Farþegarnir urðu hins vegar að vaða yfir aurinn til að komast í aðra rútu, sem flutti fólkið áfram, en það var á leið suður á Keflavíkurflugvöll. „Þetta fór betur en á horfðist," sagði Guðjón Guðmundsson, framkvæmdastjóri Höfða.

Ónýtt ræsi sökudólgurinn
Esther Hlíðar Jensen, jarðfræðingur hjá Veðurstofunni og sérfræðingur í ofanflóðum, kannaði aðstæður á vettvangi í gærmorgun.

Í samtali við Morgunblaðið sagði hún að stór pollur hefði myndast í lægð í gamla veginum um Kollafjörð, sem liggur fyrir ofan núverandi veg, en mikil rigning var á svæðinu í fyrrakvöld og fyrrinótt. Þar sem pollurinn myndaðist er gamalt og ónýtt ræsi. Um það rann vatnið úr pollinum á einn tiltekinn stað í hlíðinni. Jarðvegurinn, sem þegar var votur eftir rigningar undanfarinna daga og vikna, varð af þessum völdum gegnsósa og að lokum svo blautur og þungur að hlíðin skreið fram og út á veg.

Jónas Snæbjörnsson, svæðisstjóri Vegagerðarinnar á suðvestursvæði, sagði að frá því núverandi vegur var opnaður árið 1973 hefði aldrei fallið skriða á veginn. Yfirverkstjóri Vegagerðarinnar á staðnum hefði giskað á að rúmmál hennar hefði verið um 500-600 rúmmetrar. Skriðan hefði verið um 50 metrar á lengd og 1½ metri á þykkt.

Önnur skriða klukkan 8
Tilkynning um slysið barst lögreglu höfuðborgarsvæðisins klukkan 4:12. Guðbrandur Sigurðsson, aðalvarðstjóri umferðardeildar lögreglunnar, sagði að þegar búið hefði verið að ganga úr skugga um að enginn hefði slasast og loka vettvangi þannig að ekki hlytust af frekari slys eða óþarfa umferðartafir hefði verið kallað eftir tækjum til að moka veginn og losa og draga rútuna í burtu. Þetta hefði allt tekið töluverðan tíma m.a. vegna þess að venjubundin starfsemi fyrirtækja var ekki hafin þegar óhappið varð og setja þurfti sérstakan búnað á dráttarbíl til þess að hann gæti dregið rútuna í burtu. Þar að auki hefði önnur skriða, mun minni, fallið úr hlíðinni klukkan átta. Skriðan sullaðist út á veginn en olli hvorki tjóni né slysum.

Skriðan var um 50 metra breið.
Skriðan var um 50 metra breið. mbl.is/Júlíus
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert