Karl Steinar Guðnason, sem lætur nú af embætti forstjóra Tryggingastofnunar, segir á vef stofnunarinnar í dag, að lengi hafi skort mjög á vitræna umræðu um almannatryggingar og kerfið sé stagbætt en þó sundurslitið.
„Almenna reglan er sú að heyrist umkvartanir eru málin tekin upp á Alþingi með skyndiupphlaupum en síðan er löggjöf breytt á krampakenndan hátt án þess að yfirsýnar, yfirvegunar og gjörhygli sé gætt. Ljós er að mikil þörf er á heildarendurskoðun almannatrygginga. Við slíka endurskoðun verður að hafa það að leiðarljósi að almannatryggingar eru mannréttindi. Þess verður og að gæta að nútíma almannatryggingar eiga að sinna þörfum einstaklinga og hópa sem eru í brýnni þörf. Ekki aðeins á sviði lífeyristrygginga heldur og vegna fötlunar, líkamsskaða og erfiðra sjúkdóma," segir Karl Steinar m.a.