Landsnet: Skoða þarf forsendur Grindavíkurbæjar

mbl.is/Einar Falur

Guðmundur Ingi Ásmundsson, framkvæmdastjóri kerfisstjórnar hjá Landsneti, segir að þar á bæ hafi menn ekki fengið fregnir af fundi skipulags- og byggingarnefndar Grindavíkurbæjar, þar sem háspennulínum í lofti er hafnað nema meðfram línum sem fyrir eru. Því segir Guðmundur að ekki sé hægt að svara því hvaða áhrif þetta hafi á lagningu háspennulína fyrir álverið í Helguvík.

Beiðni Landsnets um breytingu á aðal- og deiliskipulagi sveitarfélagsins var tekin fyrir í gær og kom þar fram að frekari háspennulínur í lofti verði ekki leyfðar í sveitarfélaginu nema meðfram þeim sem fyrir eru.

Guðmundur segir að málið sé í ferli og skoða verði viðbrögð sveitarfélaganna, setjast niður með þeim og reyna að komast að lausn í málinu. Guðmundur segir að ef jarðstrengur sé eini kosturinn verði að athuga það mál vandlega, þar sem verulegur aukinn kostnaður fylgi þeim, fimm til tíu sinnum meiri en loftlínum, miðað við þá flutningsspennu sem um er að ræða.

Á vefsíðu Landverndar eru vangaveltur um það hvort fyrirætlanir um álver í Helguvík séu í uppnámi vegna ákvörðunar Grindavíkurbæjar þar sem Sandgerðisbær hafi í vor hafnað háspennulínum fyrir álverið og að bæjarráð Voga hafi neitað að taka afstöðu til valkosta Landsnets, þar sem jarðstrengur var ekki í boði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka