Ölvaður maður á flótta á stolnu reiðhjóli hafði ekki roð við fótfráum lögreglumönnum í Reykjavík, sem hlupu hann uppi og stöðvuðu för hans á Laugavegi. Maðurinn er um þrítugt. Sökum ölvunar átti maðurinn í hinu mesta basli með að halda jafnvægi á hjólinu.
Lögreglan greinir ennfremur frá því að í gær og nótt hafi fjórir ökumenn verið teknir fyrir ölvun við akstur á höfuðborgarsvæðinu. Þrír voru teknir fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna. Til viðbótar stöðvaði lögreglan för fjögurra karla í umferðinni í gær en hinir sömu höfðu allir sest undir stýri þrátt fyrir að hafa þegar verið sviptir ökuleyfi.