Iðnaðarmenn fundu töluvert magn af mannabeinum undir gólfi Útskálakirkju í Garði á Suðurnesjum í gær. Í dag unnu fornleifafræðingar frá Fornleifavernd ríkisins við uppgröftinn en á tímabili var talið að þarna hefði fundist fjöldagröf frá 1685.
Agnes Stefánsdóttir fornleifafræðingur hjá Fornleifavernd ríkisins telur að beinin sem voru á víð og dreif í efsta moldarlaginu tilheyri að minnsta kosti þremur mismundandi einstaklingum og trúlegast fleirum. Þarna var m.a. að finna höfuðkúpubein og heillegt kjálkabein úr ungu barni.
Að svo stöddu er ekki ástæða til frekari fornleifarannsókna. Beinin verða nú rannsökuð af sérfræðingum.
Agnes sagði að kirkjan hefði verið stækkuð út í kirkjugarðinn 1895 og trúlegt sé að þá hafi kirkjubyggingin farið yfir grafir og að menn hafi tínt til stærstu beinin úr þeim og grafið í nýrri gröf en beinin sem nú fundust hafi einfaldlega verið svo smágerð að þau hafi mokast með moldinni í húsgrunninum.