Héraðsdómur Suðurlands hefur dæmt fertugan karlmann í 13 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að stela úrbeinuðu hangikjötslæri úr verslun Bónus í Hveragerði í janúar á þessu ári. Maðurinn rauf með þessu skilorð eldri dóms en hann hefur margoft hlotið dóma á undanförnum árum. Hann hefur hins vegar snúið frá fyrra líferni og tók dómurinn tillit til þess.
Maðurinn hefur m.a. þrívegis verið dæmdur fyrir þjófnaðarbrot frá árinu 2004, síðast í 12 mánaða skilorðsbundið fangelsi árið 2005 og rauf það skilorð með því að stela hangikjötslærinu.
Fram kemur í dómnum, að afbrot mannsins hafi tekist á við áfengisvanda, sem hann átti við að stríða en afbrot hans tengdust misnotkun á áfengi. Hann hefur farið í áfengismeðferð og tekið á leigu bújörð á Austurlandi ásamt sambýliskonu sinni og gert samning um þátttöku í landshlutaverkefni í skógrækt. Þá eiga þau von á barni.
Verjandi mannsins sagði fyrir dómnum, að það yrði veruleg röskun á lífi fjölskyldunnar og þeim árangri, sem maðurinn hefði náð við að snúa aftur til betra lífs, yrði honum gert að sæta fangelsi fyrir brotið. Dómurinn tekur undir þetta og segir ljóst, að fangelsisvist myndi kollvarpa því starfi sem maðurinn hafi þegar hafið. Afplánum refsingar myndi hvorki þjóna almannahagsmunum, hagsmunum ákærða né refsivörslukerfisins. Var því ákveðið að dæma manninn í 13 mánaða fangelsi, skilorðsbundið til 4 ára.