Um 100 kindur drukknuðu í Kálfá

Unnið að hreinsunarstarfi við Kálfá hjá Skáldabúðum þar sem 104 …
Unnið að hreinsunarstarfi við Kálfá hjá Skáldabúðum þar sem 104 kindur drukknuðu. mbl.is/Guðmundur Karl

Talið er að yfir 100 kindur hafi drukknað í Kálfá í Gnúpverjahreppi í morgun þegar verið var að reka fé yfir ána úr safngirðingu innnan við bæinn Skáldabúðir eftir leitir á Flóa- og Skeiðamannaafrétti áleiðis til Reykjarétta á Skeiðum þar sem réttað verður í fyrramálið. Samkvæmt upplýsingum mbl.is var mjög mikið í ánni og vatnið kalt.

Um var að ræða fé úr svonefndri vesturleit á Flóamannaafrétti. Verið var að reka safnið yfir Kálfá þegar nokkrar kindur tóku sig út úr hópnum og fóru yfir á röngum stað. Safnið fylgdi á eftir en kindurnar komust ekki upp á bakkann hinumeginn vegna þess að hann var of hár og mikið vatn í ánni.

Einnig munu nokkrar kindur hafa drukknað í svonefndri austurleit á Flóa- og Skeiðamannaafrétti. Réttir voru í morgun í Hrunaréttum og Skaftholtsréttum og bárust þessar fréttir þangað.

Fréttir hafa borist af því, að afrétturinn hafi aldrei verið jafn blautur og nú í þessum göngum, að því er reyndustu leitarmenn segja.

Fé rekið í Hrunarétt í morgun.
Fé rekið í Hrunarétt í morgun. mbl.is/Sigurður Sigmundsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert