Ekkert í íslenskum lögum kemur í veg fyrir að erlendir aðilar geti, með óbeinum hætti, eignast fyrirtæki sem stunda orkuvinnslu og orkudreifingu á Íslandi. Bandaríski fjárfestingarbankinn Goldman Sachs eignaðist í vikunni hlut í Geysi Green Energy (GGE) sem á 32 prósent í Hitaveitu Suðurnesja (HS).
Samkvæmt lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri mega einungis íslenskir ríkisborgarar og íslenskir aðilar eiga virkjunarréttindi vatnsfalla og jarðhita og fyrirtæki sem stunda orkuvinnslu eða dreifingu. Með íslenskum aðilum er átt við lögaðila sem eiga heimili hérlendis. HS á og nýtir slík virkjunarréttindi.
Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra segir það vera túlkunaratriði hvort kaup Goldman Sachs í GGE stangast á við lögin. Hann tilkynnti á þriðjudag að nefnd verði skipuð til að endurskoða þessi lög.
„Það er klárlega túlkunaratriði hvort þetta stangast á við lögin og það á eftir að reyna á það. Það er kannski tilviljun að þetta mál komi upp á sama tíma og við förum af stað með endurskoðun laganna, en það undirstrikar mikilvægi þess. Þetta er eins skýrt dæmi og getur átt sér stað um þessi lög eins og þau eru núna. Það er nauðsynlegt að fara í gegnum það hvort þetta stenst ekki lögin. En eignaraðildin er lítil ennþá þannig að við höfum tíma og svigrúm til að fara yfir þetta. Við höfum ekki tapað neinu."
Nánar í Blaðinu