Allt um leikhúsin á sama stað

Fulltrúar íslensku sviðslistastofnananna og forstjóri Árvakurs við undirritun samningsins í …
Fulltrúar íslensku sviðslistastofnananna og forstjóri Árvakurs við undirritun samningsins í gær. mbl.is/Frikki
Eftir Sigríði Víðis Jónsdóttur sigridurv@mbl.is
Tímamótasamningur var í gær undirritaður á milli íslensku atvinnuleikhúsanna og Morgunblaðsins. Markmið samningsins er að neytendur geti á einum stað nálgast allar upplýsingar um framboð leikhúsanna, sýningardaga, sýningartíma, dagskrá og miðasölu. Framvegis verða þessar upplýsingar birtar í Morgunblaðinu á hverjum degi og á vefnum mbl.is. Á vefnum hefur einnig verið bætt við fjölmörgum möguleikum fyrir leikhúsin til að kynna starfsemi sína.

Hugmyndin með samstarfinu er að neytendur geti nýtt sér þjónustu Morgunblaðsins og mbl.is til að velja úr þeim fjölmörgu söng-, óperu-, dans- og leiksýningum sem í boði eru á ári hverju. Að samningnum standa Þjóðleikhúsið, Borgarleikhúsið, Leikfélag Akureyrar, Íslenski dansflokkurinn, Íslenska óperan, Landnámssetrið og Sjálfstæðu leikhúsin sem alls eru 57 sjálfstæðir leikhópar.

Sýningar úr felum

Gunnar Gunnsteinsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðu leikhúsanna, segir að þótt leikhúsin séu í innbyrðis samkeppni felist samvinna þeirra í því að þjónusta áhorfendur.

„Við erum með yfir 300.000 áhorfendur á ári, sem skiptir máli að þjónusta. Með þessu geta áhorfendur farið á einn stað og fundið upplýsingar um allar sýningar sem í boði eru. Það er náttúrlega mjög mikið að á þessu litla landi skuli á hverju ári vera frumsýndar um 80 leiksýningar á atvinnugrundvelli," segir hann.

Gunnar bendir á að mikið af leiksýningum hafi verið í felum fram að þessu, til dæmis farandsýningar. Hann segir mikinn kostnað hafa fylgt því að veita áhorfendum grunnupplýsingar, svo sem klukkan hvað sýningar séu. Með samstarfinu verði allir hins vegar sjáanlegir, einnig litlu leikhúsin. Gunnar bendir á að þegar allar upplýsingar séu komnar á einn stað skapist ný tækifæri.

„Það er mikið sóknarfæri að tengja þetta við Netið, sérstaklega gagnvart yngra fólki. Netnotkun er að breytast mjög mikið. Samvinna prentmiðilsins og netmiðilsins er líka mjög mikilvæg," segir hann.

Vefurinn er framtíðin

Auk Gunnars voru í nefndinni, sem vann að samningnum, Ása Richardsdóttir, framkvæmdastjóri Íslenska dansflokksins, og Júlía Hannam, markaðsstjóri Þjóðleikhússins.

„Ég held að leikhúsin hljóti að græða á þessari samvinnu. Það sem Morgunblaðið hefur sett upp fyrir okkur á vefnum gefur óendanlega möguleika. Vefurinn er framtíðin og þetta er bæði neytendum og leikhúsum til hagsbóta," segir Júlía.

Slóðin á leikhúsvef mbl.is er http://www.mbl.is/mm/folk/leikh/.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert