Þannig skrifar Birna Dís Vilbertsdóttir á bloggsíðu sinni í gær en bloggheimar bókstaflega loguðu eftir að mbl.is birti frétt um að Hæstiréttur Íslands hefði mildað dóm Héraðsdóms Reykjavíkur yfir karlmanni sem nauðgaði konu á hrottafenginn hátt á síðasta ári.
Bloggarar velta því m.a. margir fyrir sér hvernig geti staðið á því að maðurinn, sem dæmdur var fyrir fleiri brot í Hæstarétti en héraði, fái engu að síður mildari dóm og konan lægri miskabætur. „Skil ég þetta rétt?" spyr Oddný Ósk Sigurbergsdóttir á sinni bloggsíðu. „Héraðsdómur taldi ekki sannað að munnmök hefðu átt sér stað, en dæmdi manninn í 4 ára fangelsi fyrir nauðgun og ofbeldi. Einnig átti hann að greiða konunni 1,2 milljónir í bætur. Hæstiréttur taldi hins vegar hægt að sanna að munnmök hefðu einnig átt sér stað. En dæmdi hann í 3 og ½ árs fangelsi. Einnig á hann aðeins að greiða konunni eina milljón í skaðabætur. Hæstiréttur bætti við sökina en dró úr refsingunni!"
Svanhvít Ljósbjörg Guðmundsdóttir blaðamaður er ein þeirra sem velta fyrir sér hvað geti mögulega valdið þessu. „Ætli það hafi eitthvað truflað [dómarana] að fórnarlambið hafi verið komið heim með nauðgaranum, því eins og flestir vita þá megum við konur ekki skipta um skoðun í kynferðismálum. Við megum ekki vera til í knús og kelerí en neita samförum. Er ástæðan ekki sú að þegar „kviknar á" karlmönnum þá geta þeir ekki slökkt á sér aftur, eða álíka fornaldarleg ástæða. Verst að lögin okkar (og dómarar greinilega) eru jafn fornaldarleg!"
Anna Lilja, Kópavogsbúi og menntaskólanemi, skrifar á svipuðum nótum. „Ég er búin að fá mig fullsadda af þessu ruddalega ofbeldi, ég segi hingað og ekki lengra!" skrifar hún. „Af hverju var dómurinn fyrir þetta mjög alvarlega og sérstaklega hrottalega brot mildaður fyrir Hæstarétti? [...] Svo finnst manni fjögur ár ekki bæta upp fyrir hryllinginn sem konan hefur þurft að þola og mun þurfa að takast á við um ókomna tíð."
Í 194. gr. almennra hegningarlaga segir m.a.: "Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann með því að beita ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung gerist sekur um nauðgun og skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum."
Dómur féll í Hæstarétti í fyrradag en málið dæmdu hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason, Ingibjörg Benediktsdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.