Lögreglan á Hvolsvelli varar við roki og krapa í kringum Vík í Mýrdal. Í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins sagði lögreglan að það væri mjög hvasst og fljúgandi hálka við Reynisfjall frá Gatnabrún og niður til Víkur. Tveir bílar hafa farið útaf nú eftir hádegi þó að ekki hafi orðið slys á mönnum. Það er hvassviðrið á fjallinu sem gerir þetta ennþá verra að sögn lögreglunnar.
Lögreglan á Selfossi varar einnig við slyddu og hálkublettum á Hellisheiði þar sem hitastig er um frostmark og að ökumenn þurfi að fara gætilega.