Lítið hlaup í Múlakvísl

Snöggt hlaup virðist hafa komið í Múlakvísl á Mýrdalssandi undir kvöld í gær. Hlaupið virðist aðeins stærra en hlaup sem varð í byrjun ágúst s.l. Samkvæmt upplýsingum frá Vatnamælingum Orkustofnunar hækkaði vatnshæðin við brúna á hringvegi 1 um 160 sentimetrum í gær og náði hámarki upp úr klukkan 19 í gærkvöldi. Hlaupið kom fram á mælum við hringveginn og við Léreftshöfuð.

Á fréttavef almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra er haft eftir Reyni Ragnarssyni í Vík, að miklir vatnavextir hafi verið í Múlakvísl eftir rigningar síðustu daga. Einnig hafi myndast smá uppistöðulón framan við Huldufjöll og í Rjúpnagili. Þegar Reynir kom að Múlakvísl í gærkvöldi var hún í rénun og hafði lækkað í ánni um 60 sentimetra þegar hann tók þessa mynd við brúna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert