Vegagerðin og verktakarnir, sem eru Klæðing og Glaumur, deila um orsakir þessara tafa og sagði Sigþór Ingi Sigþórsson, framkvæmdastjóri Klæðingar, þær einkum skýrast af því að umfang verksins hefði aukist mjög auk þess sem tafir hefðu orðið á að Vegagerðin afhenti efni.
Guðbrandur Sigurðsson, aðalvarðstjóri umferðardeildar lögreglu höfuðborgarsvæðisins, sagði að lögreglan hefði gert fjölmargar athugasemdir við framkvæmdirnar. Síðast gerðist það á miðvikudag, nánar tiltekið um klukkan 17, að gröfustjóri var stöðvaður við vinnu sína þar sem ekki var farið að tilmælum um að bæta merkingar.
Lögregla gæti á hinn bóginn ekki kært og sektað verktakana fyrir slælegar merkingar o.þ.h. þar sem reglugerð um sektir væri ekki til. Hún gæti hins vegar stöðvað verk en því vopni beitti hún í hófi þar sem það væri í allra þágu að verkinu lyki sem fyrst. Við tvöföldun Reykjanesbrautarinnar hefðu komið upp dæmi um að verktakar settu upp varúðarmerki af algjöru handahófi. „Menn setja bara einhver merki og boða tóma þvælu."
Sigþór Ingi Sigþórsson, framkvæmdastjóri Klæðingar, sagði að Vegagerðin og verktakarnir deildu um ástæður fyrir töfunum. Að hans mati væru þær annars vegar tilkomnar vegna stóraukins umfangs, m.a. hefði verið lögð brú yfir brautina og yfir í Kauptún þar sem m.a. verslun IKEA stendur. Aukaverk væru nú komin í um 500 milljónir, sem segði sína sögu. Merkingar og lýsing væru eftir forskrift Vegagerðarinnar en merkjum og rándýrum blikkljósum hefði oft verið stolið. Sjálfsagt hefðu fyrirtækin þó getað gert betur.