„Menn setja bara einhver merki og boða tóma þvælu"

Þótt búið sé að hleypa umferð á tvöfalda Reykjanesbraut er …
Þótt búið sé að hleypa umferð á tvöfalda Reykjanesbraut er verkinu ekki lokið. Sums staðar teygja steypuklumpar sig inn á veginn. mbl.is/Árni Sæberg
Eftir Rúnar Pálmason runarp@mbl.is
Einum og hálfum mánuði eftir að tvöföldun Reykjanesbrautar milli Kópavogs og Hafnarfjarðar átti að vera lokið er augljóst að verktakarnir sem þar starfa eiga enn töluvert í land. Vegfarendur komast að vísu leiðar sinnar en víðs vegar á leiðinni má sjá hálfkláruð verk og á einstaka stað er vegfarendum jafnvel hætta búin. Þá hefur merkingum verið mjög ábótavant.

Vegagerðin og verktakarnir, sem eru Klæðing og Glaumur, deila um orsakir þessara tafa og sagði Sigþór Ingi Sigþórsson, framkvæmdastjóri Klæðingar, þær einkum skýrast af því að umfang verksins hefði aukist mjög auk þess sem tafir hefðu orðið á að Vegagerðin afhenti efni.

Blikkljósum stolið

Jónas Snæbjörnsson, svæðisstjóri Vegagerðarinnar á suðvestursvæði, sagðist ekki telja að ábendingar verktakanna dygðu til að skýra tafirnar. Vegagerðin hefði ekki önnur ráð en dagsektir til að þrýsta á verktaka um að klára verk og þær hefðu nú verið lagðar á. Mikill kraftur hefði farið í að sjá til þess að merkingar væru í lagi. Því miður hefði framkvæmdahraði dottið mikið niður seinnipart sumars. Vegagerðin hefði ýtt eins mikið á eftir verktakanum og henni væri unnt en alltaf væri þó hægt að gera betur.

Guðbrandur Sigurðsson, aðalvarðstjóri umferðardeildar lögreglu höfuðborgarsvæðisins, sagði að lögreglan hefði gert fjölmargar athugasemdir við framkvæmdirnar. Síðast gerðist það á miðvikudag, nánar tiltekið um klukkan 17, að gröfustjóri var stöðvaður við vinnu sína þar sem ekki var farið að tilmælum um að bæta merkingar.

Lögregla gæti á hinn bóginn ekki kært og sektað verktakana fyrir slælegar merkingar o.þ.h. þar sem reglugerð um sektir væri ekki til. Hún gæti hins vegar stöðvað verk en því vopni beitti hún í hófi þar sem það væri í allra þágu að verkinu lyki sem fyrst. Við tvöföldun Reykjanesbrautarinnar hefðu komið upp dæmi um að verktakar settu upp varúðarmerki af algjöru handahófi. „Menn setja bara einhver merki og boða tóma þvælu."

Sigþór Ingi Sigþórsson, framkvæmdastjóri Klæðingar, sagði að Vegagerðin og verktakarnir deildu um ástæður fyrir töfunum. Að hans mati væru þær annars vegar tilkomnar vegna stóraukins umfangs, m.a. hefði verið lögð brú yfir brautina og yfir í Kauptún þar sem m.a. verslun IKEA stendur. Aukaverk væru nú komin í um 500 milljónir, sem segði sína sögu. Merkingar og lýsing væru eftir forskrift Vegagerðarinnar en merkjum og rándýrum blikkljósum hefði oft verið stolið. Sjálfsagt hefðu fyrirtækin þó getað gert betur.

Í hnotskurn
» Tvöföldun Reykjanesbrautar á þessum kafla hófst vorið 2006.
» Kostnaður verður um 1,2-1,4 milljarðar króna en útboðið hljóðaði upp á 727 milljónir.
» Verklok áttu að vera 1. ágúst en tíminn var síðar framlengdur til 15. ágúst.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert