Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur, segir á bloggvef sínum, að það sé mjög óvenulegt að snjó festi í Mýrdal, Skaftártungu og á Síðu eins og gerðist í gær og morgun. Því sé um mjög merkilegan veðurviðburð að ræða.
Einar segir, að sé rýnt í veðurmetatöflur Sigurðar Þórs Guðjónssonar megi sjá, að á mjög mörgun athuganastöðvum á þessum slóðum sé ekki skráð neinn alhvítur dagur í september. Á Kirkjubæjarklaustri, en athuganir þar nái allt aftur til ársins 1926, hafi einu sinni mælst snjódýpt í september, en það var þ.11 árið 1940. Þá var uppgefin snjódýpt 0,5 sm.
Í morgun var hins vegar uppgefin 5 sm snjódýpt á Klaustri. Einar segir að það hafi að sjálfsögðu verið met í lok sumars eða byrjun hausts. Alls þrjár stöðvar gáfu upp snjódýpt í morgun, en auk Klausturs voru það úrkomuathugunarstöðvarnar Snæbýli í Skaftártungu með 10 sm og Kvísker í Öræfasveit með 3 sm. Þar var einnig gefun upp snjóföl í fyrradag.