Umfjöllun er um fíkniefni á Íslandi í nýjasta hefti fríblaðsins Djöflaeyjunnar, sem er meðal annars dreift ókeypis í framhalds- og háskóla á höfuðborgarsvæðinu. Fréttablaðið vitnar í dag í þessa umfjöllun en þar segir m.a. að kókaín sé svalasta dópið, amfetamín sé námsmannadópið og smjörsýra sé nauðsynlegt nauðgunarlyf fyrir ófrítt fólk.
Baltasar Breki Baltasarsson, annar tveggja aðstoðarritstjóra Djöflaeyjunnar, segir við Fréttablaðið að umfjöllunin sé augljóst háð. Verið sé að gera grín að fíkniefnaheiminum og hvað þetta sé asnalegt. Hann segist ekki telja að nokkur maður taki þetta alvarlega.
Hörður Oddfríðarson, deildarstjóri forvarnadeildar SÁÁ, segir að ef fíkniefnaneysla sé orðin það lítið viðkvæm að hægt sé að fjalla um hana í blaði, sem sé dreift um allt, um hvernig eigi að útvega fíkniefni, hvaða áhrif þau hafi og frekar verið að upphefja þau en hitt ættu menn að staldra við og hugsa málið.