steinunn@mbl.is
Kárahnjúkavirkjun verður gangsett í lok október og fullbyggð árið 2009. Lokahnykkur verksins er framkvæmdin við Jökulsár- og Hraunaveitu og frágangur í öðrum þáttum virkjunarinnar. Þessu lýkur á næsta ári en lítilsháttar framkvæmdir við Hraunaveitu verða til 2009.
Vatnshæð Hálslóns er nú í 622,5 m.y.s., einungis vantar 2,5 metra í fulla lónhæð en lónið verður fullt í október. Vatni verður hleypt úr lóninu í aðrennslisgöngin og um 40 km leið til stöðvarhúss virkjunarinnar seinni hluta október. Grunnvatni hefur þegar verið safnað í neðsta hluta ganganna upp að gangamótum Jökulsárveitu við Axará.
Ríflega helmingi vinnu við Jökulsár- og Hraunaveitur er nú lokið. Sér Arnarfell um þá framkvæmd ásamt undirverktökum, en Impregilo heilborar þó 8,5 km af 17,5 km ganga þar og hefur lokið rúmlega helmingi en Arnarfell um 65% af sínum hluta gangagerðarinnar. Um 35% af stíflugerð á svæðinu er lokið. Veiturnar austan við Snæfell verða tengdar inn á Kárahnjúkavirkjun eftir u.þ.b. ár.
Stöðvarhús og mannvirki í Fljótsdal eru að mestu fullgerð. Vél eitt snýst þurr og styður við raforkukerfið á Austurlandi, búið er að prófa vélar tvö og þrjú á vatni og vélar 4-6 verða prófaðar fram í október. Nú eru afhent um 100 MW afls, en full orkuþörf til álversins á Reyðarfirði verður 570-600 MW með fimm vélum og einni til vara. Virkjunin getur í fullri framleiðslu afhent 690 MW.
Um 1.300 manns vinna að virkjuninni, þar af 800 hjá Impregilo og 380 hjá Arnarfelli. Enn eru 5 fjölskyldur með 5 börn í aðalbúðum Impregilo en leik- og barnaskóli starfa ekki lengur. Mikill hluti alls búnaðar hefur verið sendur úr landi og hluti vinnubúðanna seldur. Impregilo lýkur sínu hlutverki um mitt næsta ár.
Sjá nánar í Morgunblaðinu.