Húsfyllir var á miðborgarþingi um málefni miðbæjarins í kvöld. Mikill hiti var í gestum fundarins og augljóst að margir íbúar miðborgarinnar virðast langþreyttir á ástandinu sem þar myndast um helgar. Almennt virtust menn þó á því að ástandið hafi nokkuð breyst til batnaðar að undanförnu.
Stefán Eiríksson, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, viðraði áþekkar hugmyndir og áður hafa komið fram um sýnilegri löggæslu, virkt fíkniefnaeftirlit, eftirlit með veitingahúsum, og að hart skuli tekið á brotum á lögreglusamþykktum.
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri, setti þingið og sagði meðal annars ástandið óásættanlegt og uppskar hann við það mikið lófatak.
„Orð eru til alls fyrst og svona samræða er nauðsynlegur undanfari þeirrar viðhorfsbreytingar sem ég vildi gjarnan sjá eiga sér stað hér í miðborginni næturlagi og sumpart að degi til,” sagði Vilhjálmur.