Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, sagði í pallborðsumræðum á fundi Viðskiptaráðs að henni litist vel á margar tillögur ráðsins sem kynntar voru á fundinum og bætti því við að stundum minnti ráðið hana á ungliðahreyfingar stjórnmálaflokkanna. Tillögur Viðskiptaráðs væru oft djarfar en um leið mikilvægar inn í umræðuna.
„Frelsið er okkar leiðarljós í uppbyggingu háskólamenntunar,” segir Þorgerður Katrín. Hún segist telja að Ísland sé vel í stakk búið í samkeppni á sviði háskólamenntunar á alþjóðavísu og. Hún segist vera bjartsýn á að markmið á því sviði muni nást en alveg eins og atvinnulífið og viðskiptalífið verður ekki slitið úr samhengi við menntakerfið megi ekki gleyma því að hér verður að vera stöðugleiki í efnahagsmálum. „Auðvitað vil ég að við setjum meira í menntamál en það verður fyrst og fremst að vera stöðugleiki í efnahagsmálum þetta þýðir að einkaaðilar eru að koma af meiru marki inn í háskólamálin,” og vísaði þar til kynningar Háskólans í Reykjavík á stofnun nýs sjóðs fyrr í dag þar sem Róbert Wessman hefur þegar lagt til stofnframlag upp á einn milljarð króna.
Flatur skattur það sem koma skal segir viðskiptaráðherra
Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, segir að fagna beri framlagi Róberts til HR og hann telji það af hinu góða. Björgvin segist fagna mörgum af tillögum Viðskiptaráðs og þær eigi klárlega eftir að auka samkeppnishæfi Íslands. Að sögn Björgvins er flatur skattur það sem við eigum að stefna að. Það sé það besta fyrir bæði einstaklinga og fyrirtæki. Björgvin sagði í pallborðsumræðum taka undir það með Viðskiptaráði að Evrópumálin og gjaldmiðilsmálin séu stóru málin.
Fjármálaráðherra hugnast vel að minnka umsvif ríkisins
Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, segist fagna tillögum Viðskiptaráðs og þá sérstaklega í skattamálum og lífeyrismál. Hins vegar segist hann vera á móti ívilnunum líkt og lagt sé til í skattahluta tillagna Viðskiptaráðs. Einfalda eigi hlutina.
En þó að Árni líki vel við skattahlutann þá er eitt sem stendur uppúr að hans sögn. Það er tillaga um að minnka umsvif ríkisins um fimmtung. Árni segist telja að það eigi að vera mögulegt. Viðskiptalífið hafi sýnt það og sannað að slíkt eigi að vera framkvæmanlegt. Árni segist hins vegar vera böggum hildar yfir tillögu um fjárlögin og viðurlög fyrir að brjóta fjárlögin. Segist Árni ekki gera sér grein fyrir hvort fjármálaráðherra eigi að beita viðurlögum eða hvort beita eigi fjármálaráðherra viðurlögum.