Undirbúningur kjaraviðræðna hjá ríkinu að hefjast

Kjarasamningar ríkisins gilda flestir til 31. mars eða 30. apríl á næsta ári. Kjarasamningar tveggja stéttarfélaga renna þó út þegar um næstu áramót og nokkur stéttarfélög sömdu til lengri tíma. Undirbúningur kjaraviðræðna hjá ríkinu er að hefjast samkvæmt því sem fram kemur í fréttabréfi stjórnenda hjá ríkinu.

„Á síðasta samningstímabili gerði samninganefnd ríkisins 42 kjarasamninga við 116 stéttarfélög. Til samanburðar má geta þess að á samningstímabilinu 2000-2004 gerði nefndin 77 kjarasamninga við 136 stéttarfélög. Fækkun samninga milli tímabila er jákvæð þróun sem ræðst af því að ýmis stéttarfélög sameinuðust og önnur höfðu samflot um samningsgerðina. Nú liggur fyrir að gera þarf a.m.k. 43 kjarasamninga við 115 stéttarfélög. Framundan er því mikill samningavetur.

Samninganefnd ríkisins mun leita eftir samvinnu við forstöðumenn við undirbúning samningsgerðarinnar. Slík samvinna og meiri þátttaka forstöðumanna er rökrétt afleiðing aukinnar ábyrgðar forstöðumanna á framkvæmd kjarasamninga og þróunar sem hefur orðið á kjarasamningum og launakerfi ríkisstarfsmanna á liðnum árum, svo sem með tilkomu stofnanasamninga og launatöflubreytinga. Þá hyggst Félag forstöðumanna taka þessi mál sérstaklega til umræðu á næstunni," samkvæmt fréttabréfinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert