Vistvænar samgöngur ögrandi áskorun segir forseti Íslands

Frá ráðstefnunni í morgun.
Frá ráðstefnunni í morgun. mbl.is/Frikki

„Visthæfar samgöngur eru ögrandi áskorun og til að ná árangri þurfa allir að taka saman höndum: ríki, sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklingar,“ sagði forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson, þegar hann setti alþjóðlega ráðstefnu um orkugjafa framtíðar í morgun á Hilton Reykjavík Nordica.

„Umskiptin í visthæfa orkugjafa verða á næstu áratungum og Ísland getur verið í fararbroddi þjóða í þeirri þróun,“ sagði forsetinn á ráðstefnunni sem stendur í tvo daga. Erlendir og innlendir sérfræðingar munu ræða framtíðarorkugjafa fyrir bíla og hvort og hvernig Íslendingar geti alfarið skipt yfir í hreina orku, að því er segir í tilkynningu.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri í Reykjavík og Árni Mathiesen fjármálaráðherra fluttu einnig ávörp í morgun og sögðu frá áformum ríkis og borgar til að greiða götu visthæfra samgangna. Árni sagði að nefnd á vegum ráðuneytisins myndi skila tillögum í febrúar á næsta ári um nýtt skattkerfi á bifreiðar sem yrði hliðholt endurnýjanlegri orku.

Ráðstefnan er þáttur í evrópskri samgönguviku sem Gísli Marteinn Baldursson formaður umhverfisráðs Reykjavíkurborgar setti í Perlunni í gær. Hann sagði þar að næsta viðamikla átakið í samgöngum fælist í því að efla sjálfbærar samgöngur m.a. með því bæta aðstæður og auka öryggi fyrir hjólreiðafólk í borginni, samkvæmt tilkynningu.

Í gær varð Miðborg-Hlíðar borgarhverfi samgönguviku og Kristján Möller samgöngumálaráðherra veitti viðurkenningar í keppni milli bifreiða um hver mengaði og eyddi minnst.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert