Hjálparstarf kirkjunnar hefur fengið 4 milljóna króna styrk frá utanríkisráðuneytinu til að sinna neyðaraðstoð á Gasa-svæðinu og Vestur-bakkanum í Palestínu. Það er áætlað að meirihluti Palestínumanna þurfi neyðaraðstoð.
Í tilkynningu frá Hjálparstarfi kirkjunnar segir, að ástandið á svæðum Palestínumanna hafi versnað undanfarna mánuði. Á Vesturbakkanum hafi lífskjörum manna hrakað með efnahagslegum refsiaðgerðum Ísraelsmanna. Tilkoma múrsins og hundruða eftirlitsstöðva hafi gert fólki nær ómögulegt að starfa, leita sér þjónustu s.s. heilsugæslu eða sækja nám. Atvinnuleysi sé þess vegna orðið allt að 70% og fólk hafi nánast enga möguleika á að afla sér annarra tekna.
Um 20% Palestínumanna töldust undir fátæktarmörkum árið 1998, en nú, árið 2007, hefur þeim fjölgað í 78%.
Hjálparstarfi kirkjunnar hefur borist neyðarbeiðni frá ACT/Alþjóðaneyðarhjálp kirkna, vegna aðstæðna íbúa Palestínu. ACT leggur áherslu á að gefa verst settu fjölskyldunum á Vesturbakkanum og Gasa mataraðstoð og mikil áhersla verður lögð á að styrkja heilbrigðisþjónustu á þessum svæðum. ACT ætlar að sinna heilsugæslu fyrir meira en 2300 konur og börn á mánuði. Greiða á læknis- og lyfjakostnað fyrir 500 langtímasjúklinga. Í þeim hópi eru börn, konur og karlar sem þjást af öllu frá sykursýki til krabbameins og nú fá ekki lífsnauðsynlega þjónustu.