Afgreiðslutími verði tekinn til umræðu

Frá fundinum í gærkvöldi
Frá fundinum í gærkvöldi mbl.is/Kristinn
Eftir Friðrik Ársælsson

fridrik@mbl.is

Íbúar í miðborginni fjölmenntu á fund með borgar- og lögregluyfirvöldum í gær. Áhersla var lögð á afstöðu þeirra sem byggja miðborgina til þeirrar umræðu sem hefur átt sér stað að undanförnu um umgengni og háttsemi þeirra sem leggja leið sína í miðborgina um helgar.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri fjallaði um aðgerðir borgaryfirvalda sem miða að því að stuðla að aukinni virðingu gagnvart fólki og umhverfi í miðborginni. "Ég tel ástandið í miðborginni óásættanlegt eins og það hefur verið," sagði hann.

Lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, Stefán Eiríksson, greindi íbúum frá breyttum áherslum í löggæslu í miðborginni og þeim markmiðum sem að væri stefnt með auknum sýnileika og virkari löggæslu. Stefán féllst á þau orð Vilhjálms að ástandið í miðbænum væri á köflum óásættanlegt, en hann taldi það ekki aðeins lögreglu að uppræta vandann, heldur þyrftu fleiri að láta sig málið varða.

"Ég segi það hér, hef sagt það áður og mun segja það að þessum fundi loknum að við þurfum að velta fyrir okkur afgreiðslutíma skemmtistaða, staðsetningu þeirra og gerð. Ég held að það verði að taka til skoðunar að færa þá skemmtistaði í burtu sem opnir eru lengur en til eitt eða tvö á nóttunni," sagði Stefán. Árekstrar gesta skemmtistaðanna, íbúa miðbæjarins og annarra sem þangað eiga erindi séu einfaldlega svo miklir að eitthvað af þessu verði að víkja.

Fríða Björk Ingvarsdóttir og Árni Einarsson tóku til máls fyrir hönd íbúa á svæðinu og fjölluðu um ástandið og hugsanlegar lausnir. Þótt þau hafi bæði verið sammála um það að málefni miðbæjarins hafi verið látin reka á reiðanum um langt skeið kváðust þau bæði hafa orðið vör við breytingar til hins betra í sínu nánasta umhverfi. "Það eru 15 ár síðan ég hef komið út á gatnamót Vegamótastígs og Laugavegs, þar sem ég bý, og séð jafnlítið af glerbrotum," sagði Árni.

Sjá nánar í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert