Það munaði „bara tveim sentimetrum“ þegar tæpast stóð við flutninginn á þriggja hæða húsi skamman spöl frá Hverfisgötu í Reykjavík í nótt og upp á Bergstaðastræti í Þingholtunum. Rúma tólf tíma tók að flytja húsið, sem væntanlega verður komið á nýjan grunn í kvöld.
Sigurjón Halldórsson, eigandi SR-verktaka, sem stjórnaði flutningnum, segir að minnstu hafi mátt muna þegar farið var upp Klapparstíginn, og þar hafi tafir orðið mestar. Allt hafðist þetta þó að lokum.
Ragnar Þórarinsson, meðstjórnandi SR-verktaka, sagði við Fréttavef Morgunblaðsins í morgun, að aðstæður í miðbænum hafi verið erfiðar, götur þröngar, mishæðóttar og kúptar. Húsið hafi af þessum sökum vaggað mikið, og því hafi menn viljað fara að öllu með gát.
Um tuttugu manns á vegum fyrirtækisins, lögreglunnar og Framkvæmdasýslunnar hafi unnið að flutningi hússins á vettvangi í nótt.