Loka varð bifreiðaskoðunarstöð Frumherja í Skeifunni á föstudag eftir að kona, sem reiddist mjög þegar hún var rukkuð vegna endurskoðunar á bifreið sinni, braut gler í afgreiðsluklefa og réðst að starfsmanni fyrirtækisins. Glerbrotum rigndi yfir afgreiðslumanninn sem sat inni í klefanum og varð að sauma fjögur spor í vör hans.
Samkvæmt upplýsingum frá Frumherja sætti konan sig illa við að þurfa að borga reikning vegna endurskoðunarinnar en hann hljóðaði upp á 1.200 krónur. Að sögn Orra Vignis Hlöðverssonar, framkvæmdastjóra Frumherja, mun starfsmaðurinn hafa boðið konunni afsláttarkjör en það dugði ekki til. Eftir það hafi hún lamið með hendinni í rúðuna á afgreiðsluklefanum þannig að rúðan mölbrotnaði með fyrrgreindum afleiðingum. Auk þessa hafi hún kastað lausum munum að öðrum starfsmanni sem vildi tryggja að hún færi hvergi, a.m.k. ekki fyrr en lögregla væri komin á staðinn.