Samþykkt að vinna hjólreiðaáætlun fyrir Reykjavík

Samþykkt var á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur í dag að láta vinna sérstaka hjólreiðaáætlun fyrir Reykjavík. Um var að ræða tillögu frá Árna Þór Sigurðssyni, borgarfulltrúa VG, og var hún samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

Fram kemur í tillögunni, að markmið áætlunarinnar verði að gera hjólreiðar að viðurkenndum og fullgildum kosti í samgöngumálum Reykvíkinga.

Áætlunin taki annars vegar til stefnumótunar um aukið og bætt aðgengi hjólreiðafólks í borginni og hins vegar verði um að ræða framkvæmdaáætlun til nokkurra ára sem geri grein fyrir einstökum verkefnum og fjármögnun.

Yfirstjórn verkefnisins verður í höndum umhverfis- og samgönguráðs og er stefnt að því að áætlunin verði lögð fyrir borgarstjórn ekki síðar en um mitt ár 2008.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert