Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að maður, sem grunaður er um fjölmörg innbrot og önnur afbrot á síðustu mánuðum, sæti gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í þeim málum, þó ekki lengur en til 6. nóvember. Maðurinn lauk við að afplána árs fangelsisvist í byrjun ágúst en honum tókst að strjúka úr fangelsinu í júní og framdi innbrot og önnur brot á meðan hann gekk laus.
Maðurinn var handtekinn í síðustu viku eftir að hann braust inn í verslun við Síðumúla. Hann er einnig grunaður um innbrot á heimili í Reykjavík ásamt tveimur öðrum mönnum þar sem m.a. var stolið miklu magni af skartgripum og peningum. Þá braust hann tvívegis inn í Fella- og Hólakirkju í júní þegar hann gekk laus.
M.a. annarra afbrota, sem talin eru upp í úrskurði héraðsdóms eru hlutdeild í þjófnaði í verslun Bónus, innbrot í bíla, innbrot í Kennaraháskóla Íslands og Fóstbræðraheimilið. Þá eru talin upp fíkniefnabrot og umferðarlagabrot.