Hugmyndir að nýjum miðborgarkjarna í Reykjavík

Fasteignafélagið Samson Properties, sem er í eigu Björgólfsfeðga, kynnti í dag hugmyndir um uppbyggingu nýs miðborgarkjarna í Reykjavík á svonefndum Barónsreit við ofanverðan Laugaveg. Ætlunin er að skapa þar aðlaðandi umhverfi fyrir verslanir, afþreyingu og íbúðir.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Samson Properties í dag.

Gert er ráð fyrir um 25.000 fermetra rými undir verslanir og þjónustu þar sem m.a. verður stór matvöruverslun, alþjóðlegar verslanir með þekktum vörumerkjum, kvikmyndahús og veitingastaðir. Þá er gert ráð fyrir bílakjallara á fjórum hæðum.

Svæðið sem um er að ræða afmarkast af Laugavegi, Vitastíg, Skúlagötu og Barónsstíg. Staðsetningin þykir kjörin þar sem góðar tengingar eru við gangandi umferð til og frá Laugavegi, öflugar vegtengingar fyrir bílaumferð eru frá Sæbraut og gott rými fyrir bílastæði neðanjarðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert