Húsafriðunarnefnd vill friða öll húsin þrjú

Hafnarstræti 98 á Akureyri.
Hafnarstræti 98 á Akureyri.
Eftir Skapta Hallgrímsson skapti@mbl.is
Húsafriðunarnefnd ákvað í gær að leggja til við menntamálaráðherra að friða þrjú hús við Hafnarstræti á Akureyri, húsin númer 94, 96 og 98. Það síðastnefnda er Hótel Akureyri sem títtnefnt hefur verið í fréttum undanfarið því Akureyrarbær hafði ákveðið að rífa húsið og þegar veitt leyfi fyrir nýbyggingu á lóðinni. Hin húsin tvö hafa nýlega verið gerð upp og þykja mikil prýði; París og Hamborg.

Í rökstuðningi Húsafriðunarnefndar frá því í gær er vísað í 4. grein laga um húsafriðun þar sem segir að friða megi samstæður húsa sem hafa mikið gildi. „Er einkum litið til þess að ofangreind hús hafa öll mikið gildi fyrir umhverfi sitt, ýmist sem hornhús eða áberandi kennileiti í miðbænum, og hafa mikið listrænt gildi, ekki síst í upphaflegri gerð sinni. Þá hafa tvö húsanna nýlega verið endurgerð af mikilli alúð, að til eftirbreytni er."

Nefndin segir ennfremur: „Jafnframt er horft til þess að mikilsvert sé að varðveita byggingarsögulega fjölbreytni þessa hluta miðbæjarins og tengsl Hafnarstrætis við Kaupvangsstræti, eitt helsta götuhorn á Akureyri."

Að sögn Magnúsar Skúlasonar, forstöðumanns Húsafriðunarnefndar, verður málið nú kynnt eigendum húsanna, því þeir hafa rétt til andmæla skv. stjórnsýslulögum. Það sé síðan ráðherra sem taki af skarið hvort húsin verði friðuð eður ei.

"Þetta setur málið allt í mjög undarlega stöðu og ég er undrandi á því að nefndin skuli koma svona seint fram með afstöðu sína," sagði Sigrún Björk Jakobsdóttir, bæjarstjóri á Akureyri, við Morgunblaðið í gær.

„Það hefði auðvitað verið betra ef nefndin hefði sett fram þessa skoðun á meðan við vorum að fjalla um málið, en það hefur reyndar verið viðurkennt að nefndinni hreinlega yfirsást í þessu máli."

Sigrún segir að núverandi eigendur hússins Hafnarstræti 98 (Hótels Akureyrar) hafi lagt í töluverðan kostnað og vinnu og lögmaður Akureyrarbæjar muni nú skoða málið „vegna þess að fá eða engin fordæmi eru fyrir því að álit Húsafriðunarnefndar komi svo seint fram. Við höfum farið eftir öllum eðlilegum vinnureglum varðandi þetta mál; við deiliskipulag og kynningu; höfum reynt að standa eins vel að málum og kostur er."

„Svo er spurning," segir bæjarstjóri, "hvort einhver treystir sér til þess að gera Hótel Akureyri upp. Ætlar Húsafriðunarnefnd að koma með myndarlegan styrk í það verkefni? Ég vona það," sagði bæjarstjóri.

Í hnotskurn
» Hafnarstræti 98, Hótel Akureyri, hefur staðið autt um tíma og beið niðurrifs.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert