Impregilo er byrjað að fækka starfsmönnum nú þegar líður á byggingu Kárahnjúkavirkjunar. Frá því í vor hefur fækkað um 300 manns og í október má gera ráð fyrir að 600 manns starfi hjá fyrirtækinu og um 200 í lok ársins. Á næsta ári verða á bilinu 150–200 manns í vinnu við Jökulsárveitugöng austan Snæfells.
Þegar er búið að taka í sundur og senda úr landi tvo af stóru borunum. Mikið af þeim verkfærum sem notuð voru við stíflugerðina hefur þegar verið sent úr landi. Lokið verður við að fjarlægja stærstan hluta vinnubúða Impregilo fyrir lok næsta árs. Vinna við almennan frágang svæðisins hefst næsta vor og lýkur að öllum líkindum strax um sumarið.