Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, átti fund með Javier Solana, utanríkismálastjóra Evrópusambandsins, í Brussel í vikunni. Þau ræddu ítarlega málefni Mið-Austurlanda, stöðuna í samningsumleitunum Ísraels og Palestínu og mikilvægi þess að raunverulegur árangur næðist. Jafnframt lýsti utanríkisráðherra ákvörðunum Íslendinga um framlög vegna flóttafólks frá Írak. Þá var rætt um framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og nýja stöðu landsins í öryggis- og varnarmálum, að því er segir í tilkynningu.
Á þriðjudag lauk tveggja daga heimsókn Ingibjargar Sólrúnar til Brussel en þar átti hún fundi með starfsfólki sendiráðs Íslands í Brussel og fastanefndar Íslands í NATO, auk þess að hitta forystufólk NATO og Evrópusambandsins.
Að auki heimsótti ráðherra BOZAR miðstöðina í miðborg Brussel en að frumkvæði utanríkisþjónustunnar verður þar haldinn íslenskur listviðburður á næsta ári þar sem fjöldi þekktustu listamanna Íslands mun taka þátt, samkvæmt tilkynningu.
Á mánudag hitti ráðherra framkvæmdastjóra NATO, Jaap de Hoop Scheffer o.fl. háttsetta forystumenn bandalagsins í höfuðstöðvum NATO. Þar var rætt um loftvarnarkerfið yfir Íslandi, væntanlegan fund þingmannasambands NATO á Íslandi, hið nýja öryggishugtak og breytingar á starfi NATO auk þess sem staðan í Afganistan var sérstaklega rædd. Ráðherra átti þvínæst fund með Olli Rehn framkvæmdastjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB þar sem rætt var um viðræður sem standa nú yfir við Tyrkland og Króatíu um aðild að sambandinu og framtíðarsýn ESB um frekari stækkun.
Á þriðjudag átti utanríkisráðherra fund með Louis Michel, framkvæmdastjóra þróunarsamvinnu og mannúðarmála ESB þar sem rætt var um nýjar áherslur Evrópusambandsins á því svið, þar á meðal aukna áherslu á stuðning við verkefni á fjárlögum þróunarríkja. Þá átti hún fund með Joe Borg framkvæmdastjóra sjávarútvegsmála þar sem m.a. var rætt um þróun sjávarútvegsstefnu ESB, samanburð við íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið og grænbók ESB um málefni hafsins (Maritime Policy).
Fagnaði framkvæmdastjórinn sérstaklega framlagi Íslands til stefnumótunar á grundvelli grænbókarinnar. Loks átti ráðherra fund með Benitu Ferrero Waldner framkvæmdastjóra utanríkismála í framkvæmdastjórn ESB. Þær ræddu ýmis EES mál og stöðu samningsins og ítarlega um stöðuna í Mið-Austurlöndum, sérstaklega um aðkomu ESB að samningsumleitunum þar og framlag Evrópu og ESB innan kvartettsins svonefnda, samkvæmt tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.