Nýr höfundur hlýtur barnabókaverðlaun

Hrund Þórsdóttir með verðlaunin.
Hrund Þórsdóttir með verðlaunin. mbl.is/G. Rúnar

Hrund Þórsdóttir hlýtur íslensku barnabókaverðlaunin í ár fyrir bók sína Loforðið sem kemur út hjá Vöku Helgafelli í dag. Þetta er fyrsta bók Hrundar. Alls bárust dómnefnd verðlaunanna 13 handrit til lestrar.

Sagan fjallar um ellefu ára stelpu sem verður fyrir því að missa bestu vinkonu sína. Sagt er frá vináttu stelpnanna, áfallinu og söknuðinum og litla skrýtna lyklinum og loforðinu sem Ásta gefur vinkonu sinni og sver við leynistaðinn að standa við.

Hrund Þórsdóttir er 26 ára gömul, menntuð í stjórnmálafræði og blaðamennsku og starfar nú um stundir hjá útgáfufélaginu Birtíngi. Verðlaunin nema 400 þúsund krónum, auk hefðbundinna ritlauna.

Verðlaunasjóður íslenskra barnabóka var stofnaður 30. janúar 1985 í tilefni af sjötugsafmæli Ármanns Kr. Einarssonar rithöfundar (1915-1999). Að sjóðnum standa fjölskylda Ármanns, bókaútgáfan Vaka-Helgafell, Barnabókaráðið, Íslandsdeild IBBY-samtakanna og Barnavinafélagið Sumargjöf. Fulltrúar þessara aðila skipa dómnefnd sem velur úr handritum en einnig eru í henni hverju sinni tveir grunnskólanemar, fulltrúar lesenda.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert