Landlæknisembættið segir, að þrír fíkniefnaneytendur, sem sprauta sig, hafi um síðustu áramót greinst með HIV-smit. Þessir einstaklingar höfðu innbyrðis tengsl sem benda til þess að smit hefði borist með menguðum sprautum og nálum.
Segir í Farsóttafréttum að atburðarásin það sem af er árinu renni stoðum undir þá skoðun að hópsýking meðal fíkniefnaneytenda sé í uppsiglingu því fleiri tilfelli HIV-smits meðal fíkniefnaneytenda hafi bæst við á árinu og eru þau nú samtals fjögur.
Í Farsóttafréttum segir, að það sem renni enn frekari stoðum undir innbyrðis tengsl milli þessara sýkinga meðal fíkniefnaneytenda sé, að þeim fylgi smit af völdum lifrarbólgu B, sem einnig sé blóðsmitandi.
Í Farsóttafréttum segir, að frá því að alnæmisfaraldurinn barst til landsins í upphafi níunda áratugarins hafi faraldur meðal fíkniefnaneytenda verið sérstakt áhyggjuefni. Margir hafi talið að það sé einungis tímaspursmál hvenær hann berst í þennan áhættuhóp. Ein leið til þess að sporna við útbreiðslu HIV-smits meðal fíkniefnaneytenda sé að auðvelda aðgengi að hreinum sprautum og nálum ekki síður en smokkum.